Tilraunatölfræði


Opinberir styrkir í menningu og skapandi greinum

Samantekt

Talnaefnið sem hér er birt byggir á upplýsingum um umsóknir og úthlutanir úr opinberum menningarsjóðum. Fjallað er um umsóknir, úthlutanir og árangurshlutfall og tölurnar greindar eftir því hvort um einstaklinga og/eða rekstraraðila er að ræða. Árangurshlutfall er hlutfall styrktra verkefna af heildarfjölda eða -upphæð umsókna. Birtingin er hluti af þróun Hagstofu Íslands á hagtölum um opinbera styrki og fjármögnun í menningu og skapandi greinum.

Lýsing

Tölurnar eru unnar á grundvelli gagna frá umsýsluaðilum um umsóknir og úthlutanir úr opinberum menningarsjóðum. Talnaefni er birt bæði fyrir heildarfjölda og heildarupphæðir umsókna og úthlutana, þvert á sjóði og eftir sjóðum. Á meðal einstaklinga er talnaefni brotið niður eftir aldurshópum, kyni og menntunarstigi en rekstraraðilum er skipt upp eftir fjölda starfsmanna.

Markmið

Birting þessara talna er liður í þróun hagtalna um opinbera styrki og fjárfestingu í menningu og skapandi greinum. Umsýsla opinberra menningarsjóða fer fram hjá fjölmörgum aðilum og skráning upplýsinga um umsóknir og úthlutanir er ekki samræmd þeirra á milli. Því hefur reynst erfitt að ná utan um gögnin í heild sinni og fá heildarmynd af styrkjakerfi menningar- og skapandi greina.

Markmið birtingarinnar er að birta nákvæmara niðurbrot af þeim sem sækja um og hljóta opinbera styrki til menningarmála og gefa vísbendingu um hvernig Hagstofan getur nýtt grunnupplýsingar frá umsýsluaðilum menningarsjóða til að framleiða talnaefni um umsóknir og úthlutanir eftir skráarbundnum breytum eins og aldri, kyni, menntunarstigi og atvinnugrein umsækjenda. Þá veitir notkun nýrra gagna sem þessara Hagstofunni tækifæri til að skoða birtingarmynd þýðisins í skráargögnum, til að mynda varðandi starfandi samkvæmt skrám. Birtingin er jafnframt liður í að auka samtal við notendur um gagnahögun og nytsemi hagtalna fyrir hópinn.

Árangurshlutfall í menningarsjóðum hæst á meðal lögaðila

Síðast uppfært: 28. september 2023

Árið 2022 voru tæplega 70% umsókna í Tónlistarsjóð, Hljóðritasjóð og Launasjóð listamanna frá einstaklingum með rekstur á eigin kennitölu. Hlutfallið var hæst í Launasjóð listamanna, tæp 80%, en það er jafnframt eini sjóðurinn sem eingöngu tekur við umsóknum frá einstaklingum. Í Hljóðritasjóð bárust 19% umsókna frá lögaðilum og 43% umsókna í Tónlistarsjóð.




Þegar umsækjendum er skipt á milli einstaklinga og rekstraraðila kemur í ljós að árangurshlutfall er töluvert hærra á meðal rekstraraðila. Árið 2022 var árangurshlutfall rekstraraðila alls 49% en einstaklinga 33%. Einstaklingar sem eru með rekstur á eigin kennitölu falla undir báða hópa en árangurshlutfall þeirra var 46%. Þá var árangurshlutfall lögaðila 68% á meðal þeirra sem höfðu einn starfsmann og 59% á meðal þeirra sem höfðu fleiri en einn starfsmann.


68% umsækjanda teljast starfandi
Sé aðeins horft til umsókna frá einstaklingum bárust 68% þeirra árið 2022 frá einstaklingum sem teljast starfandi samkvæmt skrám. Í þann hóp falla þeir sem höfðu einhverjar tekjur af atvinnu sem gert er grein fyrir í uppgjöri Skattsins um staðgreidda skatta, þar á meðal þeir sem voru í fæðingarorlofi frá vinnu og þeir sem eru með reiknað endurgjald.


Umsóknum 15-35 ára fer fjölgandi
Hlutfall umsókna frá einstaklingum á aldrinum 15-35 ára hækkaði frá 2016 til 2022 en lækkaði í öðrum aldurshópum. Fjöldi úthlutana hefur þróast á svipaðan hátt og árangurshlutfall allra aldurshópa lækkað hlutfallslega álíka mikið. Árangurshlutfall var þó öll árin nema eitt hærra á meðal 36-60 ára en 15-35 ára.




Litlar breytingar urðu á milli 2016 og 2022 á skiptingu eftir menntunarstigi umsækjenda. Umsækjendur með grunnmenntun áttu á bilinu 3-5% af umsóknum á tímabilinu, 16-18% höfðu lokið námi á framhalds- eða viðbótarstigi, 43-44% stuttu háskólanámi eða bakkalár og 33-38% meistaragráðu eða doktorsprófi. Þá er ekki að sjá að menntunarstig hafi teljandi áhrif á árangurshlutfallið.


Umfjöllun um tilraunatölfræðina
Tölfræðin byggir í þessari fyrstu atrennu á gögnum um þrjá menningarsjóði og nær því aðeins utan um lítinn hluta heildarinnar. Þá var ákveðið að takmarka úrvinnsluna við tilteknar skráarbundnar breytur en ljóst er að möguleikarnir eru fleiri, til dæmis varðandi atvinnugreinar og landshluta.

Tölfræðin er jafnframt liður í því að auka samtal við notendur um gagnahögun og nytsemi hagtalna fyrir hópinn. Notendur eru því hvattir til að hafa samband ef þeir hafa athugasemdir eða ábendingar við talnaefni eða umfjöllun.

Birtingin er hluti af afmörkuðu þróunarverkefni Hagstofunnar sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2023.


Talnaefni

Opinberir styrkir í menningu og skapandi greinum 28092023 (xlsx)


Lýsigögn

Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður sem geta tekið breytingum eftir því sem grunngögn eru bætt. Tölurnar byggja annars vegar á gögnum frá umsýsluaðilum menningarsjóða og hins vegar á skráargögnum Hagstofu Íslands. Gögn frá umsýsluaðilum eru gæðaprófuð og auðguð með tengingu við skráargögn Hagstofunnar, svo sem mennuntarskrá, fyrirtækjaskrá og staðgreiðsluskrá.

Eitthvað er um annmarka á gögnum umsýsluaðila, til dæmis vegna innsláttarvilla. Þannig getur verið munur á tölum í útgáfu Hagstofunnar og talnaefni sem umsýsluaðilar gefa sjálfir út.

Umsækjendur eru flokkaðir í a) einstaklinga sem eru með rekstur á eigin kennitölu, b) lögaðila og c) einstaklinga án reksturs. Lögaðilar eru þeir rekstraraðilar sem starfa á sér kennitölu og einstaklingar án rekstur teljast þeir sem ekki eru með rekstur á eigin kennitölu. Talnaefni um einstaklinga nær til hópa a) og c) og talnaefni um rekstraraðila til hópa a) og b).

Upplýsingar um aldur og kyn byggja á mannfjöldagögnum Hagstofunna. Þar er kynjum skipt í þrennt, karlar, konur og kynsegin. Aldur miðast í þessari úrvinnslu við 1. janúar hvert ár.

Flokkun menntunarstöðu byggir á ÍSMENNT2011. Upplýsingar koma úr menntunarskrá Hagstofu Íslands.

Fjöldi einstaklinga í staðgreiðslu eru þeir sem teljast starfandi samkvæmt skrám, það er þeir sem höfðu einhverjar tekjur af atvinnu sem gert er grein fyrir í uppgjöri Skattsins um staðgreidda skatta. Þar á meðal þeir sem voru í fæðingarorlofi frá vinnu og þeir sem eru með reiknað endurgjald á því tímabili sem gögnin ná yfir. Sjá nánar í lýsigögnum.


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1052. Netfang: erla.r.gudmundsdottir@hagstofa.is