Tilraunatölfræði


Fyrsta eign einstaklinga

Samantekt

Birtar eru tölur um einstaklinga á aldrinum 18-34 ára sem eignuðust sína fyrstu fasteign. Gögnin gefa vísbendingu um aldur, kyn og menntun þeirra sem eignast hafa sína fyrstu eign á undanförnum árum.

Lýsing

Birtar eru upplýsingar um þá sem eignuðust sína fyrstu fasteign og voru skráðir í Þjóðskrá. Gögnin eru sundurliðuð eftir aldri, kyni og menntun.

Markmið

Vegna eftirspurnar eftir talnaefni um húsnæðismál og mikillar umfjöllunar um þann málaflokk, gefur Hagstofan út talnaefni um fyrstu eigendur til að veita betri upplýsingar um þá sem eru að eignast sína fyrstu eign. Með þeim hætti fæst aukin þekking á inngöngu einstaklinga á fasteignamarkað.

Flestir eignast fyrstu eign fyrir þrítugt

Síðast uppfært: 14. október 2020

Hlutfall einstaklinga af meðalmannfjölda sem eignast sitt fyrsta íbúðarhúsnæði fer hækkandi frá 18 ára aldri og nær hámarki í kringum 26 til 28 ára aldur en fer þá aftur lækkandi ef skoðaður er aldurshópurinn á milli 18 og 34 ára. Árið 2019 var hlutfall þeirra sem eignuðust fyrstu íbúðareign á aldrinum 25-33 ára lægra en tvö árin á undan.


Fyrstaeign eftir aldri

Á árunum 2017-2019 var hlutfall þeirra sem eignast fyrstu eign svipað eftir kyni. Ef hlutfallið er skoðað eftir aldri og kyni má sjá að það er hæst hjá konum á 25.-28. aldursári. Í því samhengi er áhugavert að benda á að meðalaldur kvenna sem eignast sitt fyrsta barn er um 28 ár og er því mögulegt að það tengist stofnun heimilis ( Meðal-, mið og tíðasti aldur mæðra og feðra 1961-2019. px-tafla)

.

Fyrstaeign eftir kyni og aldri

Af þeim sem eignuðust sína fyrstu eign árið 2018 voru 72,2% sem eignuðust hana með öðrum en 27,8% sem stóðu ein að eigninni. Af þeim sem eignuðust sína fyrstu eign einir voru 60,2% karlar en 39,8% konur.

Fáar konur með grunnmenntun eignast sína fyrstu eign einar

Séu þeir sem eignuðust sína fyrstu fasteign árið 2018 skoðaðir út frá kyni og menntunarstigi á kaupdegi sést að 39,2% karla með grunnskólamenntun eignuðust fasteign einir en einungis 15,8% kvenna. Hlutfallið jafnast með hærra menntunarstigi þannig að 27,7% karla með háskólamenntun voru einir eigendur og 24,0% kvenna.


Fyrstaeign eftir kyni og menntun


Talnaefni

Fyrsta eign einstaklinga 14102020 (xlsx)


Lýsigögn

Gögnin ná til allra einstaklinga sem voru á aldrinum 18-34 ára á kaupdegi og voru skráðir í þjóðskrá, voru í fyrsta sinn með skráða eign með kaupdag á tímabilinu 2017-2019 samkvæmt fasteignaskrá og eignuðust íbúðarhúsnæði, sem að lágmarki var tilbúið til innréttingar, einir eða með öðrum með annað hvort 50% eða 100% eignarhlutfall.

Ekki er hægt að gera greinarmun á fasteignarkaupum og erfðarmálum.

Menntunarstig tekur mið af menntunargögnum Hagstofunnar sem ná aftur til loka ársins 2018. Gögnin eru greind út frá hæsta menntunarstigi á kaupdegi. Menntunarstaða er flokkuð eftir ÍSMENNT2011-flokkunarkerfinu (pdf).



Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1034. Netfang: gudrun.b.stefansdottir@hagstofa.is