Tilraunatölfræði


Áhrif kórónuveirufaraldursins á atvinnugreinar menningar

Samantekt

Tilraunatölfræði um áhrif kórónuveirufaraldursins (Covid-19) á atvinnugreinar menningar er samantekt á ýmsu talnaefni Hagstofu Íslands sem gerir greiningu eftir atvinnugrein á grundvelli ÍSAT2008-flokkunarkerfisins mögulega. Talnaefnið leiðir í ljós að samdráttur hefur orðið á fjölda starfandi og launasummu í atvinnugreinum menningar og þó ekki sé hægt að fullyrða að eingöngu sé um áhrif faraldursins að ræða má ætla að samdrátturinn eigi fyrst og fremst upptök sín þar.

Lýsing

Birtar eru upplýsingar um heildarsummu staðgreiðsluskyldra launa, launagreiðendur og fjölda starfandi í atvinnugreinum menningar. Heildasumma staðgreiðsluskyldra launa og fjöldi launagreiðenda byggir á tilraunatölfræði Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur og fjöldi starfandi byggir á vinnuafli samkvæmt skrám. Enn fremur er gerð grein fyrir nýtingu á úrræðum stjórnvalda, annars vegar hlutabótum (á grundvelli gagna Vinnumálastofnunar) og hinsvegar frestun skattgreiðslna, lokunarstyrkjum, stuðningslánum, stuðningi við greiðslu á uppsagnarfresti, viðbótarlánum og greiðsluskjóli (á grundvelli gagna Skattsins).

Markmið

Markmiðið er að varpa ljósi á áhrif kórónuveirufaraldursins á atvinnugreinar menningar og miðla þeim upplýsingum til notenda. Einnig er skoðað hvort fyrirtæki í atvinnugreinum menningar hafi nýtt sér almennar mótvægisaðgerðir stjórnvalda.

Launagreiðslur í atvinnugreinum menningar drógust saman um 23% á milli ára

Síðast uppfært: 28. október 2020

Árið 2020 hefur orðið töluverður samdráttur á staðgreiðsluskyldum launagreiðslum í atvinnugreinum menningar en þær lækkuðu um 22,9% á milli apríl 2019 og 2020 samanborið við 9,7% samdrátt á launagreiðslum alls á vinnumarkaði. Þrátt fyrir 15,3% hækkun á milli apríl og ágúst 2020 er enn 5,4% samdráttur á milli ára í ágúst. Til samanburðar höfðu heildarlaunagreiðslur alls á vinnumarkaði hækkað um 1,2% á milli ágúst 2019 og 2020.

Launagreiðendum sem greiða staðgreiðsluskyld laun fækkaði jafnframt mest á milli apríl 2019 og 2020, um 5,9% alls og 7,3% í atvinnugreinum menningar. Á milli ágúst 2019 og 2020 hafði þeim fækkað um 5,3% alls og 6,3% í atvinnugreinum menningar. Rétt er að taka fram að einyrkjar sem greiða sér reiknað endurgjald eru ekki meðtaldir í tilraunatölfræði um launagreiðendur og staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (sjá nánar í lýsigögnum).

Heildarlaunagreiðslur í atvinnugreinum menningar eftir mánuðum 2019 og 2020


Starfandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt skrám hefur einnig fækkað á milli ára. Sé miðað við sama mánuð árið 2019 var samdrátturinn mestur í maí þegar starfandi í aðalstarfi1 í atvinnugreinum menningar hafði fækkað um 10,1% á milli ára og störfum2 um 12,1% . Samanborði við ágúst 2019 fækkaði þeim sem voru í aðalstarfi í atvinnugreinum menningar örlítið minna en í apríl og maí eða um 9,1%. Störfum í atvinnugreinum menningar fækkaði um 6,9% milli ára. Til samanburðar hafði starfandi alls á vinnumarkaði fækkað um 6,2% á milli apríl 2019 og apríl 2020 og störfum alls um 7,5%. Í ágúst hafði starfandi fækkað um 5% frá ágúst 2019 og störfum um 5,2%.


Hlutfallsleg breyting á fjölda starfandi í aðalstarfi milli 2019 og 2020 eftir mánuðum

Samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun voru að jafnaði rúmlega 27 þúsund einstaklingar á mánuði á hlutabótum í mars, apríl og maí 2020. Af þeim voru að meðaltali um 2% á mánuði starfandi í atvinnugreinum menningar. Frá júní til ágúst 2020 var meðalfjöldinn tæplega 4.700 alls á mánuði og hlutfall þeirra sem störfuðu í atvinnugreinum menningar 3,6%. Til samanburðar var hlutfall starfandi í atvinnugreinum menningar árið 2019 3% af heildarfjölda starfandi samkvæmt skrám.


7,4% fyrirtækja sem nýttu sér stuðningslán starfa í atvinnugreinum menningar

Nýting atvinnurekenda í atvinnugreinum menningar á mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið mismikil eftir aðgerðum.

Til og með september hafa 457 fyrirtæki í atvinnugreinum menningar nýtt sér frestun skattgreiðslna eða 5,9% þeirra 7.742 fyrirtækja sem það hafa gert. Meðalfjárhæð hvers fyrirtækis í atvinnugreinum menningar var 916 þúsund krónur samanborið við 1,45 milljónir króna hjá fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum og er heildarupphæð frestaðra skattgreiðslna hjá fyrirtækjum í atvinnugreinum menningar því 3,8% af heildarfjárhæð alls.

Næstalgengast er að fyrirtæki í atvinnugreinum menningar hafi nýtt sér stuðningslán stjórnvalda og er hlutfall þeirra af fyrirtækum alls jafnframt hæst þar eða 7,4%. Talsvert færri fyrirtæki hafa nýtt sér þetta úrræði borið saman við frestun skattgreiðsla eða samtals 612 og þar af 45 í atvinnugreinum menningar. Meðalupphæðir fyrirtækja í atvinnugreinum menningar eru lítið eitt lægri en annarra fyrirtækja í þessari aðgerð eða 8,2 milljónir króna samanborið við rúmar 8,5 milljónir króna.

Þá hafa 29 fyrirtæki í atvinnugreinum menningar nýtt sér lokunarstyrki og 38 fyrirtæki greiðslu launa á uppsagnafresti, eða 2,8% og 3,8% af heildarfjölda fyrirtækja sem hafa nýtt sér þessar tvær aðgerðir. Ekkert fyrirtæki í atvinnugreinum menningar hafði nýtt sér viðbótarlán eða greiðsluskjól.

1 Við talningu á fjölda starfandi í aðalstarfi er hver einstaklingur aðeins talinn einu sinni í mánuði og fellur viðkomandi þá undir þá atvinnugrein sem hann hefur hæstar tekjur frá.

2 Við talningu á fjölda starfa er hver einstaklingur talinn einu sinni fyrir hverja atvinnuþátttöku í ISAT 2008-atvinnugrein í mánuði. Einstaklingur getur því verið talinn oftar en einu sinni í hverjum mánuði en ekki oftar en samtala atvinnugreina sem einstaklingurinn tók þátt í á mánaðarbili.


Talnaefni

Áhrif kórónuveirufaraldursins á atvinnugreinar menningar 281020 (xlsx)


Lýsigögn

Staðgreiðsluskyld laun og fjöldi starfandi byggja í grunninn á staðgreiðsluskrá Skattsins en öllum þeim, sem teljast greiðendur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinbera gjalda, ber að skila mánaðarlega skilagrein með sundurliðuðum upplýsingum um hvern þann sem fær staðgreiðsluskylda launagreiðslu. Einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu, sem greiða sjálfum sér laun í formi reiknaðs endurgjalds, eru ekki hluti staðgreiðsluskyldra greiðslna en hluti af fjölda starfandi. Um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum yfir tíma og er vakin athygli á því að tölur geta breyst vegna síðbúinna skila launagreiðanda. Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eru í íslenskum krónum og á verðlagi hvers mánaðar.

Atvinnugrein tekur mið af aðalatvinnugrein fyrirtækja og félaga í fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands. Atvinnugreinar menningar eru samsettar úr nokkrum atvinnugreinum í ÍSAT2008-kerfinu, sjá lýsigögn um fjölda starfandi í atvinnugreinum menningar fyrir lista yfir atvinnugreinanúmer. Rétt er að geta þess að í þessari útgáfu er ekki horft til starfandi í menningarstörfum í öðrum atvinnugreinum. Sú flokkun byggir á ÍSTARF95-flokkunarkerfinu sem er ekki meðtalið í skráargögnum.

Upplýsingar um mótvægisaðgerðir stjórnvalda koma úr sérstakri gagnasöfnun Hagstofu Íslands. Gögnum var safnað frá Seðlabanka Íslands, Vinnumálastofnun, Dómstólasýslu og Skattinum.

Lýsigögn um fjölda starfandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt skrám.
Tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur.
Talnaefni um fjölda starfandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt skrám eftir árum.
Talnaefni um fjölda starfandi samkvæmt skrám.

Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1052. Netfang: erla.r.gudmundsdottir@hagstofa.is