Efnahagur

Tölfræði um vinnumagn byggir á alþjóðlegum stöðlum þjóðhagsreikninga og er ætlað að gefa heildarmynd af vinnuafli hverrar atvinnugreinar svo sem fjölda þeirra sem starfa í viðkomandi grein og fjölda unninna stunda allra starfsmanna á skilgreindu viðmiðunartímabili. Niðurstöður byggja á samnýtingu allra tiltækra heimilda, svo sem upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja, launarannsókn Hagstofu Íslands og vinnumarkaðsrannsókn. Framleiðni í hagfræðilegum skilningi er mælikvarði á verðmætasköpun miðað við tiltekinn framleiðsluþátt. Framleiðni vinnuafls er birt sem vísitala á ársgrundvelli reiknuð út frá magnvísitölu vergra þáttatekna og fjölda vinnustunda.