FRÉTT ÝMISLEGT 08. NÓVEMBER 2005

Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið „Health at a Glance, OECD Indicators 2005“. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar.

Ritið skiptist í fimm kafla sem fjalla um heilbrigðisástand; aðbúnað, mannafla og nýtingu; heilbrigðisútgjöld og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar; áhrifaþætti heilsufars aðra en læknisfræðilega og lýðfræðilegan og efnahagslegan bakgrunn. Ritinu fylgir samantekt auk fjöldi taflna og mynda. Samantekt OECD á íslensku er hægt að nálgast á heimasíðu OECD.

Ísland í samanburði við önnur lönd OECD

Útgjöld til heilbrigðismála
Heildarútgjöld  til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðatali 8,8% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2003.  Sem dæmi um mikinn mismun á hlutfalli heilbrigðisútgjalda af VLF má nefna að Bandaríkin vörðu 15% af VLF til heilbrigðisútgjalda árið 2003 en Slóvakía 6%.

Árið 2003 er áætlað að um 10,5% af VLF hérlendis hafi verið varið til  heilbrigðismála í heild, samanborið við 10% árið 2002.  Norðmenn vörðu 10,3%  af VLF til heilbrigðismála  árið 2003, Frakkar 10,1% og Danir 9,0% . 

Hérlendis er megin hlutinn af útgjöldum til heilbrigðismála fjármagnaður af hinu opinbera og nam hlutur hins opinbera 8,8% af vergri landsframleiðslu á árinu 2003, samanborið við 8,3% árið áður.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála á íbúa voru á árinu  2003 5.635 USD í Bandaríkjunum miðað við jafnvirðisgildi dollars, 3.807 í Noregi, 3.781 í Sviss, 3.705 í Lúxemborg og á Íslandi 3.115. Óvegið meðaltal OECD ríkja var 2.394 USD á íbúa  árið 2003.

Opinber útgjöld til heilbrigðismála á íbúa á Íslandi voru á sama tíma 2.602 USD miðað við jafnvirðisgildi og er Ísland í þriðja sæti hvað þessi útgjöld varðar af aðildarríkjum OECD. Opinber útgjöld á íbúa eru hvað hæst í Lúxemborg 3.329 USD en þar á eftir í Noregi 3.188 USD.

Vert er að geta þess að allur samanburður á útgjöldum Íslands til heilbrigðismála við önnur aðilaríki OECD er erfiður þetta ár þar sem aðildarríkin styðjast enn við ólíka staðla og uppgjörsaðferðir. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið gerð upp eftir þjóðhagsreikningastöðlum á Hagstofu Íslands en í ársbyrjun 2004 var tekin sú ákvörðun á Hagstofunni að innleiða nýtt flokkunarkerfi OECD, System of Health Accounts (SHA) og nota það við uppgjör á útgjöldum til heilbrigðismála. Enn sem komið er hefur Hagstofan ekki sent gögn til OECD sundurliðuð eftir SHA staðlinum en stefnt er að því að svo verði á næsta ári.

SHA staðalinn er unnin í samvinnu OECD og Hagstofu Evrópusambandsins. Staðallinn felur í sér ítarlegri sundurliðun útgjalda en áður og er ætlað að gefa betri upplýsingar um starfsemi heilbrigðisgeirans í hverju landi og auðvelda samanburð milli landa. Með tilkomu SHA mun samanburður landa á milli verða betri þar sem kveðið er á um skýra afmörkun heilbrigðismála og skýrari sundurliðun útgjaldaliða. Af þeim ástæðum hefur  OECD gert þá fyrirvara að erfitt sé að bera saman útgjöldin ríkja á milli.  Hins vegar væntir OECD þess að samanburður milli landa verði mun auðveldari og áreiðanlegri þegar öll lönd OECD hafa tekið upp SHA staðalinn.

Löndum sem gera upp eftir SHA fer fjölgandi og í lok ársins 2004 voru löndin orðin 21 sem voru komin vel á veg eða að hefja notkun, þrjú lönd voru að undirbúa notkun SHA, þrjú lönd að íhuga málið og önnur þrjú lönd höfðu ekki tekið ákvörðun um notkun á SHA. 

Heilbrigðisástand
Í flestum ríkjum OECD hafa lífslíkur aukist mikið á síðustu áratugum. Árið 2003 voru lífslíkur við fæðingu 80,7 ár á Íslandi (meðaltal af lífslíkum kvenna og karla) en aðeins í Japan voru lífslíkur hærri, 81,8 ár. Lífslíkur voru að meðaltali 77,8 ár í OECD ríkjum. Voru lífslíkur karla hæstar á Íslandi, 79,0 ár en lífslíkur kvenna í 7.-8. sæti OECD ríkja, 82,4 ár.

Árið 2003 var tíðni ungbarnadauða lægst á Íslandi eða sem svarar 2,4 látnum á fyrsta ári af 1000 lifandi fæddum en meðaltal OECD landa var á sama tíma 6,1. Þá var hlutfall lifandi fæddra með lága fæðingarþyngd (undir 2500 gr.) einnig lægst á Íslandi þetta ár eða 3,1% en meðaltal OECD landa var 6,5%.

Hlutfall fullorðinna sem reykja daglega hefur farið minnkandi í flestum löndum OECD. Á Íslandi reyktu 25% karla og 20% kvenna (15–79 ára) daglega árið 2003. Meðaltalið fyrir OECD var 32% fyrir karla en 21% fyrir konur.

Áfengisneysla á Íslandi var með því minnsta í ríkjum OECD árið 2003 eða 6,5 alkóhóllítrar á íbúa 15 ára og eldri. Meðaltalið fyrir ríki OECD var á sama tíma 9,6 lítrar. Í rúmlega tveimur af hverjum þremur ríkjum OECD dró úr áfengisneyslu á tímabilinu 1980-2003. Ísland var hins vegar í hópi þeirra landa þar sem áfengisneyslan jókst og var aukning mest á Íslandi, 51% og á Írlandi 41%.

Tíðni ofþyngdar og offitu hefur vaxið i öllum ríkjum OECD en ástandið er misjafnt eftir löndum. Árið 2003 (eða ár sem næst því) var hlutfall of feitra lægst 3% í Japan og Kóreu og hæst 31% í Bandaríkjunum. Á Íslandi var þetta hlutfall 12% árið 2002, (jafnhátt fyrir konur og karla) samanborið við 8% árið 1990. Nokkur ár líða frá því að offita greinist og til þess tíma er heilsufarsvandamál henni tengd koma fram. Ljóst er að aukin tíðni offitu á Íslandi og í öðrum OECD ríkjum mun í framtíðinni hafa í för með sér aukinn heilbrigðisvanda og aukin útgjöld því samfara.

Aldursstöðluð dánartíðni af völdum blóðþurrðarsjúkdóma var nokkru lægri hér á landi en að meðaltali í ríkjum OECD árið 2002 meðal kvenna ( 71,5/100.000) en hærri meðal karla (163,1/100.000). Hins vegar var dánartíðni vegna heilaæðasjúkdóma lægri hér en að meðaltali í ríkjum OECD bæði hjá konum og körlum.

Munur á dánartíðni vegna lungnakrabbameins eftir kyni var minni á Íslandi en í öðrum löndum OECD árið 2002 þar sem munur milli kynja var almennt mikill. Var dánartíðni lungnakrabbameins hjá körlum lægst í Svíþjóð og því næst á Íslandi (36/100.000) en meðaltal fyrir OECD ríkin var næstum helmingi hærra (60/100.000). Íslenskar konur voru hins vegar með fjórðu hæstu dánartíðni lungnakrabbameins (31/100.000) meðal OECD ríkja, en hæst var tíðnin í Danmörku 38/100.000).

Árið 2002 var dánartíðni brjóstakrabbameins hjá konum svipuð hér á landi (22,4 af 100.000) og meðaltal OECD landa (22,7/100.000). Dánartíðni karla vegna krabbameins í blöðruhálskirtli var hins vegar hæst á Íslandi (43,5/100.000) en Noregur, Svíþjóð og Danmörk fylgdu í kjölfarið. Meðaltal ríkja í OECD var 25,9 á 100.000. Árið 2002 sem hér um ræðir létust óvenjumargir úr þessu meini á Íslandi miðað við nokkur næstu ár á undan og árið 2003. Vegna þess hve íslenska þjóðin er fámenn geta tölur af þessu tagi sveiflast til milli ára og ber því að taka samanburð um dánarmein þegar um einstök ár er að ræða með vissum fyrirvara.

Starfsemin í heilbrigðisþjónustu
Á Íslandi voru 3,6 læknar á hverja 1000 íbúa árið 2003, en meðaltal OECD var 2,9. Þá voru 13,7 hjúkrunarfræðingar á 1000 íbúa á Íslandi, og aðeins á Írlandi var þetta hlutfall hærra eða 14,8. OECD gerir fyrirvara við tölur um hjúkrunarfræðinga m.a. vegna þess hve misjafnt er eftir löndum hvaða hjúkrunarstéttir eru meðtaldar. Tölur fyrir Ísland ná yfir fjölda starfandi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða samtals sem er samkvæmt leiðbeiningum OECD.

Komur til lækna (samskipti við lækna í heilsugæslu og við sérfræðinga á stofum og göngudeildum) á íbúa voru 5,6 á Íslandi árið 2001 og hafði talan hækkað úr 5,1 árið 1990 en breytileiki er mikill eftir löndum hvað þetta varðar allt frá tæpum þremur í 14 á íbúa á ári.

Á síðasta áratug hefur orðið mikil aukning í hátækni lækningatækjum svo sem tölvusneiðmyndatækjum og segulómtækjum. OECD hefur reiknað hlutfall þessara tækja miðað við milljón íbúa eftir löndum. Árið 2002 var fjöldi tölvusneiðmyndatækja 21 á milljón íbúa hér á landi eða nokkru meiri en meðaltal OECD sem var tæplega 18. Var sambærilegt hlutfall segulómtækja rúmlega 17 á Íslandi, næst hæst OECD ríkja en meðaltalið var rúmlega sjö á milljón íbúa. Hvað Ísland snertir er hér um 5-6 tæki að ræða af hvorri tegund.

Árið 2002 voru útskriftir af sjúkrahúsum (en. acute care) 181 á 1000 íbúa á Íslandi en 161 að meðaltali í ríkjum OECD. Meðallegutími á sjúkrahúsum hefur farið lækkandi í löndum OECD á árunum 1990-2002. Hefur hann lækkað úr 7,0 dögum í 5,2 á Íslandi á sama tíma og meðaltalið fyrir OECD hefur lækkað úr 8,8 í 6,7 daga.  Meðallegutími fyrir eðlilega fæðingu var hér á landi 2,2 dagar árið 2002, sem er minna en á öðrum Norðurlöndum og einnig minna en meðaltal OECD sem var 3,6 dagar. Að mati OECD ber að skoða tölur um útskriftir og meðallegutíma með fyrirvara þar sem enn skortir á að upplýsingar séu nógu sambærilegar.

Árið 2003 voru gerðar 54 kransæðaaðgerðir á 100.000 íbúa á Íslandi sem er nokkuð undir meðaltali OECD (70/100.000). Var sambærilegt hlutfall slíkra aðgerða langhæst í Bandaríkjunum (161) og Belgíu (159). Þá voru gerðar 215 kransæðavíkkanir á 100.000 íbúa hér á landi sama ár. Voru aðeins þrjú önnur ríki með hærra hlutfall slíkra aðgerða, Bandaríkin, Belgía og Þýskaland.  Meðaltalið fyrir ríki OECD var 150 aðgerðir á 100.000 íbúa.

Almenn athugasemd
Þess skal getið að í riti OECD „Health at a Glance 2005“ er gerð  grein fyrir skilgreiningum sem OECD setur fram við öflun efnis og helstu frávikum frá þeim eftir löndum eftir því sem þær liggja fyrir. Skortir enn á að upplýsingar séu ávallt sambærilegar milli landa. Er því mikilvægt að tekið sé tillit til þess um leið og tölur ritsins eru skoðaðar.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.