FRÉTT MENNTUN 25. ÁGÚST 2011

Samanlagður fjöldi kennsludaga og prófadaga nemenda í framhaldsskólum skólaárið 2010-2011 var á bilinu 160 til 185 eftir skólum en að meðaltali 175,2. Það er óbreyttur fjöldi frá fyrra skólaári. Þetta kemur fram í upplýsingum frá framhaldsskólunum til Hagstofu Íslands.

Kennsludagar og vinnudagar
Kennsludagar skiptast í reglulega kennsludaga og aðra kennsludaga. Reglulegir kennsludagar voru frá 141 til 180 eftir skólum og stafar munurinn af mismunandi skipulagi skólastarfsins. Meðalfjöldi reglulegra kennsludaga var 149,0 sem er óveruleg breyting frá fyrra ári. Reglulegir kennsludagar voru að meðaltali 3,6 fleiri á vorönn en á haustönn. Að auki voru aðrir kennsludagar 1,9 að meðaltali.

Dagar sem einungis var varið til prófa og námsmats voru frá 0 til 30 að tölu. Flestir skólar eru með ákveðinn prófatíma en í öðrum skólum fara próf fram á kennsludögum. Að meðaltali var 24,2 dögum varið til prófa og námsmats og er það fjölgun um 0,2 daga frá fyrra skólaári.

 

 

Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir samtals 175 kennslu- og prófadögum á starfstíma skóla og fjórum vinnudögum kennara að auki. Vinnudagar kennara á skólaárinu 2010-2011 reyndust vera frá 174 til 195. Meðalfjöldi vinnudaga kennara var 181,5 og er það fjölgun um 0,4 daga frá fyrra skólaári.

Sérdeildir starfa við 22 skóla
Í gagnasöfnun um skólahald er einnig spurt hvort sérdeild sé starfandi við skólann. Fram kemur að sérdeild er starfandi við 22 framhaldsskóla og er það fjölgun um einn skóla frá fyrra skólaári.

Þá er spurt um form kennslunnar, hvort í skólanum sé áfangakerfi eða bekkjarkerfi. Fram kemur að bekkjarkerfi er við lýði í 6 framhaldsskólum á landinu en áfangakerfi í öðrum framhaldsskólum.

Um gögnin
Gagna um fjölda kennsludaga, prófadaga og aðra vinnudaga kennara var aflað frá 36 framhaldsskólum. Tveir skólar, Menntaskólinn Hraðbraut og Snyrtiskólinn, starfa eftir þriggja anna kerfi og eru ekki taldir með í tölunum hér að ofan. Á síðastliðnu skólaári tók Menntaskólinn á Tröllaskaga til starfa og hefur því framhaldsskólunum fjölgað um einn frá síðastliðnu skólaári.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.