FRÉTT MENNTUN 22. JANÚAR 2007

Mennta- og menningarmáladeild Hagstofu Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda skráðra nemenda í framhaldsskólum og háskólum haustið 2006 og gefið út í ritröðinni Hagtíðindi.

Alls eru 44.129 skráningar í framhaldsskóla og háskóla
Haustið 2006 eru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi fleiri en nokkru sinni fyrr eða 44.129. Í framhaldsskóla eru skráðir 26.958 nemendur og 17.171 nemendur í háskóla. Fjöldi skráðra nemenda í námi á háskólastigi hefur aukist um 63,6% frá hausti 2000 en nemendum á framhaldsskólastigi hefur fjölgað um 35,4% á sama tímabili (mynd 1).

Haustið 2006 stunda 81,0% nemenda nám í dagskóla, 13,6% nemenda eru skráðir í fjarnám og 5,4% nemenda stunda nám í kvöldskólum. Kvöldskólanám hefur verið á undanhaldi allt frá 2003 en það haust voru 8,1% nemenda skráðir í kvöldskólanám. Nemendum í fjarnámi fjölgar talsvert frá haustinu 2005 en sú fjölgun er öll á framhaldsskólastigi (37,6%). Nemendum í fjarnámi á háskólastigi fækkaði hins vegar um 5,4% frá síðasta ári.

 

Konur eru fleiri en karlar bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi
Á haustmisseri 2006 voru konur umtalsvert fleiri en karlar meðal nemenda í framhaldsskólum og háskólum eða 57,7% (25.447) en karlar eru 42,3% (18.682) nemenda. Haustið 2000 voru hlutföllin þau að konur voru 56,3% nemenda á þessum tveimur skólastigum en karlar 43,7%. Þessi munur á skólasókn kynjanna hefur því haldist allt frá árinu 2000 og aukist lítillega síðan þá.

Þegar skólasókn kynja er skoðuð eftir skólastigum sést að hlutur kvenna er talsvert meiri í háskólum en framhaldsskólum. Haustið 2006 eru konur 54,5% nemenda í framhaldsskólum en meðal nemenda í háskólum er hlutur kvenna 62,7%. Í Háskóla Íslands eru konur fjölmennari en karlar í 10 deildum af 11. Karlar eru einungis fjölmennari í verkfræðideild en þar eru konur 30% nemenda en karlar 70%. Mestur er munurinn í hjúkrunarfræðideild en þar eru konur 96% nemenda en karlar 4%. Jafnast er hlutfall kynja í viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild (mynd 2).

Í ofangreindum Hagtíðindum má finna yfirlitstölur um heildarfjölda skráðra nemenda í framhalds- og háskólum frá árinu 2000 til 2006. Einnig sundurliðaðar tölur eftir skólastigi, kennsluformi og tegundum skóla fyrir sama tímabil. Þá er að finna í ritinu ítarlegar upplýsingar um fjölda skráðra nemenda haustið 2006 eftir einstaka skólum, námsbraut, kyni og kennsluformi. Loks má finna upplýsingar um fjölda nemenda eftir námsstöðu þeirra.

Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2006 - Hagtíðindi

Talnaefni:
  Framhaldsskólar
  Háskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.