FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 14. MARS 2024

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 86,7 milljarða króna árið 2023 samkvæmt bráðabirgðatölum eða sem nemur 2% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman árið 2022 neikvæð um 4% af VLF eða um 155,3 milljarða króna.

Áætlað er að heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs hafi aukist um 11,8% á milli áranna 2022 og 2023 og að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 7% á sama tíma. Afkoma hins opinbera ásamt tölum um eignir og skuldir eru áætlaðar út frá bráðabirgðatölum. Niðurstöður munu taka breytingum þegar uppgjör liggur fyrir í september 2024.

Hagstofan mun uppfæra mannfjöldatölur fyrir Ísland þann 21. mars nk. Töflur opinberra fjármála þar sem fram kemur hlutfall á mann verða uppfærðar samtímis.

Afkoma hins opinbera jákvæð á fjórða ársfjórðungi 2023
Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið jákvæð um 5,9 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2023 eða sem nemur 0,6% af VLF ársfjórðungsins. Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 26,9% á fjórða ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á sama tímabili er áætlað að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 9,6%.

Tekjur hins opinbera 43,1% af VLF
Tekjur hins opinbera eru áætlaðar 1.844 milljarðar króna árið 2023 eða sem nemur 43,1% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.649,7 milljarður króna árið 2022 eða 42,5% af VLF þess árs. Á verðlagi hvers árs jukust þar með tekjur hins opinbera um 194,3 milljarða á árinu 2023, borið saman við fyrra ár, eða um 11,8%.

Heildartekjur ríkissjóðs árið 2023 eru áætlaðar 1.352,2 milljarðar króna og að þær hafi aukist um 11,2% frá árinu 2022. Tekjur sveitarfélaga eru áætlaðar 547,2 milljarðar króna sem er um 13,6% aukning frá fyrra ári. Heildartekjur almannatrygginga jukust um 3,7% á tímabilinu og eru áætlaðar alls 387,4 milljarðar króna á árinu 2023. Rétt er að benda á að 99,5% tekna almannatrygginga renna úr ríkissjóði. Hjá ríkissjóði eru framlögin gjaldfærð undir fjárframlög til opinberra aðila. Þegar tekjur og gjöld hins opinbera eru tekin saman er framlögum á milli opinberra aðila eytt út til þess að koma í veg fyrir ofmat á tekjum og gjöldum.

Uppgjör hins opinbera í meðferð Hagstofu Íslands er unnið samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins og er meðferð á sölu eigna og tekjur af hlutdeildarfélögum og samrekstri frábrugðin uppgjöri Ríkisreiknings og sveitarfélaga. Í uppgjöri Hagstofunnar eru tekjur af sölu eigna, hlutdeild af tekjum og virðisbreytingum eigna færðar um efnahagsreikning. Eingöngu eru tekjufærðar tekjur af fyrirtækjum í eigu hins opinbera í formi arðgreiðslna að hámarki sem nemur hagnaði fyrra árs.

Útgjöld hins opinbera 45,1% af VLF
Útgjöld hins opinbera eru áætluð 1.930,7 milljarðar króna árið 2023 eða sem nemur 45,1% af VLF. Til samanburðar námu útgjöldin 1.805 milljörðum króna árið 2022 eða 46,5% af VLF þess árs. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 1.407,3 milljarðar króna árið 2023 sem er aukning um 5,5% frá fyrra ári. Áætluð útgjöld sveitarfélaga nema 589,9 milljarðar króna á árinu 2023 og nemur aukningin 10% frá fyrra ári.

Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 1.098,4 milljörðum króna eða 25,7% af VLF árið 2023. Er það aukning um 10,4% á milli ára. Áætlað er að launakostnaður hafi aukist um 9% frá árinu 2022.

Áætluð fjárfestingarútgjöld hins opinbera námu 165,4 milljörðum króna 2023 eða sem nemur 3,9% af VLF ársins. Sem hlutfall af VLF ársins hefur fjárfesting hins opinbera lækkað lítillega og er sambærileg fjárfestingu ársins 2020.

Bráðabirgðatölur ársins 2023 benda til þess að félagslegar tilfærslur til heimila hafi numið 293,8 milljörðum króna sem er aukning um 3,8% frá 2022. Á árinu 2022 drógust útgjöld hins opinbera vegna félagslegra tilfærslna saman um 7,6% frá fyrra ári. Áætluð vaxtagjöld hins opinbera námu 214 milljörðum króna á árinu 2023 og drógust saman um 4,2% frá fyrra ári eða sem nemur um 9,3 milljörðum króna.

Áætlað er að heilbrigðisútgjöld hins opinbera hafi numið 343 milljörðum króna á árinu 2023 eða 18,8% af hreinum heildarútgjöldum hins opinbera. Er það aukning um 8,8% frá fyrra ári eða sem nemur um 27,8 milljörðum króna.

Útgjöld hins opinbera til fræðslumála eru áætluð 274 milljarðar króna 2023 eða 15% af hreinum heildarútgjöldum hins opinbera. Á verðlagi hvers árs er það aukning um 28,3 milljarða frá árinu 2022 eða 11,5%.

Heildarskuldir hins opinbera námu 95,9% af VLF í lok árs 2023
Hrein peningaleg eign hins opinbera er áætluð neikvæð um 1.322.1 milljarð króna í árslok 2023 eða sem nemur 30,9% af VLF ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign hins opinbera neikvæð um 1.370,3 milljarða árið 2022 eða 35,3% af VLF þess árs.

Peningalegar eignir hins opinbera námu 2.783,3 milljörðum króna í árslok 2023, sem er aukning um 11,4% frá fyrra ári. Er þá áætlað að peningalegar eignir hins opinbera hafi numið 65% af VLF í lok árs 2023. Heildarskuldir hins opinbera hækkuðu á milli ára og námu samkvæmt áætlun 4.105,4 milljarða króna í lok ársins 2023 eða 95,9% af VLF. Til samanburðar námu heildarskuldir hins opinbera 3.869,2 milljörðum árið 2022 eða 99,7% af VLF þess árs.

Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar 3.536,2 milljarðar króna í lok árs 2023 og nemur hækkunin 177,7 milljörðum króna frá fyrra ári eða 5,3%. Áætlaðar skuldir sveitarfélaga eru 573,8 milljarðar króna í lok árs 2023 og hækka um rúma 58,6 milljarða króna á milli ára.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.