Mannfjöldinn 1. janúar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Mannfjöldinn 1. janúar

0.2 Efnisflokkur

Mannfjöldi

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Mannfjölda- og manntalsdeild

Brynjólfur Sigurjónsson
brynjolfur.sigurjonsson (hjá) hagstofa.is

Sími: 528 1033

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Upplýsingar um íbúafjölda í mannfjöldatöflum frá alþjóðastofnunum (Sameinuðu þjóðirnar, Eurostat og Evrópuráðinu) miða yfirleitt við mannfjöldann eins og hann stendur um áramót.

Frá árinu 1703 til 1960 var mannfjöldinn ákvarðaður með manntali. Frá árinu 1840 til 1996 hefur mannfjöldinn 1. janúar verið áætlaður árlega út frá manntali og/eða stöðu þjóðskrár 1. desember. Frá 1998 hefur þjóðskráin verið gerð upp eins og hún stendur 1. janúar ár hvert. Miðað er við stöðuna eins og hún er á miðnætti í ársbyrjun. Stöðuskráin gefur upplýsingar um þróun fólksfjölda og samsetningu hans.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Ráðuneyti, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar.

0.6 Heimildir

Manntöl og íbúaskrá Þjóðskrár.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007.
Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.
Lög um lögheimili, nr. 21/1990.
Lög um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1953.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Engin.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB


1. Efni


1.1 Efnislýsing

Úr þjóðskránni 1. janúar eru unnar upplýsingar um heildarmannfjölda með lögheimili á Íslandi. Eftirtalin atriði koma fram í útgefnu efni:

  • Mannfjöldi eftir kyni og aldri

Í ítarlegri töflum er mannfjöldinn 1. janúar flokkaður eftir:

  • Fjölskyldugerð og hjúskaparstétt
  • Sveitarfélögum, þéttbýli og byggðakjörnum
  • Póstnúmerum og götum
  • Ríkisfangi og fæðingarlandi

1.2 Tölfræðileg hugtök

Lögheimili: Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. (1. gr. laga nr. 21/1990). Hverjum þeim sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur ber að skrá lögheimili sitt á Íslandi. Dveljist hann eða ætlar að dvelja vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur má hann þó eiga lögheimili hér (2.gr. s.l.).

Hugtakið um lögheimili eins og það er notað í þjóðskrá er því frábrugðið leiðbeiningum Sameinuðu þjóðanna um skilgreiningu fastrar búsetu, en þar er miðað við að viðkomandi einstaklingur ætli sér búa á nýjum stað í a.m.k. 12 mánuði eða hafi þegar búið a.m.k. 12 mánuði á staðnum. Þeir sem ætla sér að búa skemur en 12 mánuði á einhverjum stað teljast vera í skammtímaflutningum og á ekki að reikna með þegar taldir eru þeir sem hafa fasta búsetu á einhverju svæði.

Skráning lögheimilis í þjóðskrá er þó ekki aðeins frábrugðin alþjóðlegum leiðbeiningum hvað varðar búferlaflutninga milli landa. Leiðbeiningarnar eiga líka við um búferlaflutninga innanlands. Í flutningstilkynningum innanlands er hins vegar ekki spurt hvort ætlað sé að flutningurinn sé til skamms tíma eða ekki, þannig að allar tilkynningar um breytt lögheimili eru meðhöndlaðar sem breyting á fastri búsetu, óháð því hversu lengi viðkomandi ætla sér að búa á nýjum stað.

Byggðakjarni: Byggðakjarni er byggð, þorp eða annað tilgreint svæði innan eins sveitarfélags þar sem íbúarnir búa í nágrenni hvern við annan. Byggðakjarninn ber ýmist eigið nafn eða á hann er litið sem slíkan í byggðinni. Í mannfjöldatölum Hagstofunnar er miðað við að upplýsa um íbúafjölda byggðakjarna þar sem íbúar eru 50 eða fleiri. Einnig er upplýst um íbúafjölda byggðakjarna með færri íbúa ef þeir hafa áður verið fleiri en 50 eða að það stefnir að því að þeir verði fleiri en 50. Ef íbúafjöldi fer niður fyrir 25 í nokkur ár er hætt að birta íbúatölur fyrir kjarnann.

Þéttbýlisstaður: Með þéttbýlisstað er átt við einn eða fleiri samliggjandi byggðakjarna.

Stærðarflokkun þéttbýlisstaða er lögð til grundvallar skiptingu íbúanna eftir byggðarstigi og aðgreiningu í þéttbýlisstaði, fámennari þéttbýlisstaði og strjálbýli. Árið 1960 tók Hagstofan að skipta mannfjölda í þéttbýli og strjálbýli samkvæmt sameiginlegri skilgreiningu sem hagstofurnar á Norðurlöndum nota, sem tekur mið af reglum Sameinuðu þjóðanna. Er þá notuð sundurliðun eftir byggðarstigi, þ.e. flokkun eftir íbúatölu þéttbýlisstaða. Mörk þéttbýlis og strjálbýlis voru sett við þéttbýlisstaði með 200 íbúa eða fleiri þegar annað var ekki tekið fram en miðuðust áður við 300 íbúa í samræmi við sveitarstjórnarlögin frá 1905, en þau kváðu svo á að kauptún með a.m.k. 300 íbúa gætu gerst sérstök sveitarfélög.

Hjúskaparstaða: (stundum nefnd hjúskaparstétt). Með hjúskaparstöðu er á átt við hvort einstaklingur sé í hjónabandi, fráskilinn, ekkill/ekkja eða hafi aldrei gifst. Til giftra/kvæntra einstaklinga teljast einnig þeir sem hafa skilið að borði og sæng eða ekki eru samvistum með maka. Til hjónabands telst einnig staðfest samvist einstaklinga af sama kyni, skv. lögum nr. 87/1996. Hjúskaparstaða er flettuð saman við sambúð, þannig að greint er hvort giftir einstaklingar séu samvistum við maka eða ekki, og hvort ógiftir eða áður giftir einstaklingar (ekkjur, ekklar og fráskildir) séu í skráðri sambúð eða ekki.

Ríkisfangsland: Með ríkisfangslandi er átt við Ísland ef barn er fætt af íslensku foreldri. Að öðru leyti er miðað við hvaða ríki hefur gefið út vegabréf það eða skilríki sem viðkomandi hefur framvísað við skráningu í Þjóðskrá. Þeir sem hafa skilríki frá landsvæðum sem ekki teljast fullvalda, s.s. frá heimastjórnarsvæðum Palestínu, eru skráðir sem ríkisfangslausir. Sama gildir um þá sem fæddir eru í Eystrasaltslöndunum sem fengu ekki sjálfkrafa ríkisfangsrétt þegar þau öðluðust sjálfstæði 1991 en hafa fengið skilríki útgefin þaðan sem viðurkenndir utanríkisborgarar (recognized non-citizens). Ríkisfangsland getur verið áfram skráð í þjóðskrá, þrátt fyrir að viðkomandi ríki hafi verið lagt niður, ef viðkomandi einstaklingar hafa ekki fengið skráningu sinni breytt. Þetta hefur einkum átt við um ríkisborgara frá fyrrum Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og Júgóslavíu.

Fæðingarland: Fæðingarland er það land sem viðkomandi fæddist í. Farið er eftir skráningu í viðkomandi skilríkjum, þannig að ekki er alltaf vitað eftir hvaða reglu skráð hefur verið, eða hvort sjálfur fæðingarstaðurinn sé enn innan núverandi landamæra hafi þau breyst síðan. Fæðingarland getur verið áfram skráð í þjóðskrá, þrátt fyrir að viðkomandi ríki hafi verið lagt niður, ef viðkomandi einstaklingar hafa ekki fengið skráningu sinni breytt. Þetta hefur einkum átt við um þá sem fæddir eru í fyrrum Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu eða Júgóslavíu.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Mannfjöldinn er reiknaður eins og hann stendur samkvæmt þjóðskrá á miðnætti í upphafi hvers nýs árs.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími er um það bil mánuður. Óskráðar fæðingar og andlát sem eiga sér stað fyrir áramót og skráð eru fyrir lok vinnslutíma eru færð inn, en flutningar sem enn hafa ekki verið tilkynntir eða skráðir eru ekki teknir með, þótt þeir hafi átt sér stað fyrir áramót.

2.3 Stundvísi birtingar

Tölur um mannfjölda 1. janúar birtast með fréttatilkynningu í febrúar eða mars. Að jafnaði er einnig gefin út ítarlegri greining í Hagtíðindum í mars eða apríl ár hvert. Ítarlegt talnaefni er aðgengilegt á vef Hagstofunnar jafnskjótt og fréttatilkynningar hafa verið gefnar út.

2.4 Tíðni birtinga

Mannfjöldatölur 1. janúar eru gefnar út einu sinni á ári.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Með samanburði á manntali og þjóðskrám má meta skekkjur í mannfjöldatölum sem byggðar eru á þjóðskrá. Síðasta manntal á vegum Hagstofu Íslands var framkvæmt 31. janúar árið 1981 og töldust þá 227.870 manns vera á landinu. Þjóðskráin 1. desember 1980 uppfærð til 31. janúar 1981 gaf aftur á móti 229.567 einstaklinga. Um 1.697 fleiri einstaklingar fundust í þjóðskrá frá sama tíma og manntalið var tekið (um 0,7% skekkja). Heildarskekkja er þó meiri en þessu nemur. Alls má ætla að í þjóðskránni hafi verið 3.183 einskaklingar búsettir erlendis samkvæmt manntalinu, en 1.496 einstaklingar búsettir á Íslandi en ekki samkvæmt skrám.

Líklegt má telja að stór hluti þeirra sem fara til útlanda í skemmri eða lengri tíma til náms eða starfa kjósi að vera áfram skráðir í þjóðskrá. Þeim er það leyfilegt ef þeir eru í námi. Útlendingar sem hverfa af landi brott hafa oft litla hvata til að tilkynna slíkan flutning. Þess vegna má búast við því að jafnan séu fleiri skráðir í þjóðskrá 1. janúar en eru í reynd á landinu. Í vinnumarkaðsrannsóknum Hagstofunnar sem staðið hafa síðan 1991 hefur fjöldi 16 til 74 ára sem búa erlendis en með lögheimili á Íslandi verið um 2,9% af öllum aldurshópnum.

Erfiðara er að meta hversu margir eru á landinu með fasta búsetu án þess að vera skráðir með lögheimili. Þeim má skipta í þrjá flokka:
  • Fólk með búsetuleyfi á Íslandi, t.d. íslenskir ríkisborgarar, sem hafa skráð lögheimili erlendis í Þjóðskrá.
  • Fólk með tímabundið búsetuleyfi á Íslandi, sem runnið er út, en eru enn skráðir í utangarðsskrá Þjóðskrár.
  • Fólk með óskráða og ólögmæta búsetu á Íslandi.

Samkvæmt Manntalinu 1981 voru um 900 íslenskir ríkisborgarar búsettir á landinu, en með lögheimili erlendis skv. skrám. Þá voru taldir 596 einstaklingar sem ekki fundust í þjóðskrá frá þessu tímabili, annað hvort án fæðingarnúmers (kennitölu) eða með óþekkt fæðingarnúmer.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjuvaldar fyrir tölur um breytingar mannfjöldans frá ári til árs 1. janúar eru þrenns konar: Síðbúnar tilkynningar um búferlaflutninga, síðbúin dánarvottorð og síðbúnar fæðingarskýrslur. Við skoðun á töfum skýrslna á árabilinu 1996-2000 kom í ljós að mestri óvissu valda síðbúnar tilkynningar um búferlaflutninga, en þeirra vegna eru að meðaltali í kringum 80 manns van- eða oftaldir í áramótatölum. Síðbúin dánarvottorð valda ofmati á mannfjöldanum 1. janúar, u.þ.b. 10 manns, á meðan síðbúnar fæðingarskýrslur valda vanmati á á mannfjöldanum um einn einstakling um það bil annaðhvert ár. Skekkja á heildarfjölda í þjóðskrá er því að jafnaði (meðaltal áranna 1996-2000) í kringum 0,03%, of eða van.

Um áramótin 2007 og 2008 urðu afbrigðilegar aðstæður þess valdandi að skráning óvenju margra búferlaflutninga til lansdins töfðust fram yfir áramót. Þetta leiddi til umtalsverðs vanmats á mannfjöldanum 1. janúar 2008 sem gerð var grein fyrir í fréttatilkynningu þ. 12. febrúar 2009. Vegna þessa var brugðið á það ráð að gefa út endurskoðaðar tölur fyrir það ár.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engin öryggismörk reiknuð þar sem um heildarsafn er að ræða.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Frá og með 1. janúar 2008 hefur Hagstofan miðað áramótastöðu mannfjöldans við nýbyrjað ár, en byrjað var á því að taka stöðuskrár þjóðskrár fyrir 1. janúar árið 1998. Enginn munur er á tölunum hvort sem þær eru miðað við lok árs eða uphaf ársins. Frá 1960 til 1996 voru áramótatölur uppreiknaðar með því að bæta fæðingarskýrslum og dánarvottorðum í desember við mannfjölda skv. þjóðskrá eins og hann stóð 1. desember. Frá 1840 til 1959 voru áramótatölur áætlaðar út frá manntölum.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Þar sem vísað er í mannfjöldann í öðrum efnisflokkum hagskýrslna er annað hvort farið eftir mannfjöldatölum 1. janúar eða 1. júlí (miðárstölur). Í nokkrum úrtaksrannsóknum, þar sem skiptir máli að meta raunverulegan fjölda karla og kvenna sem starfa á landinu, s.s. vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar eru mannfjöldatölurnar nokkuð lægri, en þá hefur verið tekið tillit til þeirra sem samkvæmt rannsókninni eru með lögheimili á Íslandi en í námi eða starfi erlendis.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru gefnar út um mannfjölda 1. janúar. Hagstofan getur þó orðið að leiðrétta áður birtar tölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Vefur Hagstofu Íslands
  • Hagtölur á vef Hagstofu Íslands
  • Fréttir á vef Hagstofu Íslands
  • Hagtíðindi. Ritröð Mannfjöldi
  • Landshagir. Hagtöluárbók Hagstofu Íslands
  • Hagtíðindi. Mánaðarrit Hagstofu Íslands. Útgáfu hætt 2004
  • Mannfjöldaskýrslur til ársins 1980. Í ritröðinni Hagskýrslur Íslands
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland (Ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon). Reykjavík 1997

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögn geymd á tölvutæku formi í Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands. Ekki er veittur aðgangur að einstaklingsbundnum gögnum en unnt er að fá sérvinnslur úr þeim gegn greiðslu.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands, s. 528 1030 eða með tölvupósti: mannfjoldi (hjá) hagstofa.is

© Hagstofa �slands, �ann 4-1-2010