Vísitala launakostnaðar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Vísitala launakostnaðar

0.2 Efnisflokkur

Laun og tekjur

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Laun, tekjur og menntun
Tölvupóstfang: laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tilgangur með gerð launakostnaðarvísitölunnar er að veita aðilum vinnumarkaðarins og hinum ýmsu greiningaraðilum færi á að skilja verðbólguþróun og þróun vinnumarkaðarins, fylgjast með breytingum á launakostnaði og hafa sambærilegan mælikvarða á launakostnaði á milli landa Evrópusambandsins.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Gögnin eru notuð til að bera saman laun og launakostnað á milli Íslands og nágrannalandanna. Ekki er komin reynsla á hverjir helstu notkunaraðilar hér innanlands eru. Ætla má að notendur séu stofnanir, hinir ýmsu greiningaraðilar og einstaklingar.

0.6 Heimildir

Gögnin koma úr launarannsókn Hagstofu Íslands. Launarannsóknin byggir á úrtaki fyrirtækja og er gögnunum safnað beint úr launahugbúnaði þeirra. Gögnin ná til atvinnugreinanna iðnaður (D), byggingarstarfssemi og mannvirkjagerð (F), verslun, viðgerðir- og þjónusta (G) og samgöngur og flutningar (I).

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Upplýsingum er safnað í samræmi við heimild í lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og reglugerð Evrópuráðsins nr. 530/1999 um launakannanir. Samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands nr. 163/2007 er eitt af meginatriðum landshagsins, sem hagstofunni ber einkanlega að rannsaka, efnahagur landsmanna. Undir því teljast laun og launakostnaður landsmanna.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Við söfnun gagna frá fyrirtækjum er töluverð vinna við innleiðingu í launarannsóknina sem lendir að stórum hluta á fyrirtækinu. Byrðin er þó nær eingöngu við innleiðingu þess í launarannsóknina en er hverfandi eftir það.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Grunnreglugerð vegna launa og launatengdra gjalda er reglugerð Evrópuráðsins nr. 530/1999 um launakannanir. Skilgreiningar og útfærsla á rannsókninni kemur fram í öðrum reglugerðum. Þetta eru reglugerðir 450/2003 og 1216/2003.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Þessari rannsókn er ætlað að setja fram hugtök til að meta breytingar á launum og launakostnaði og gera kleyft að bera þau saman á milli landa Evrópusambandsins.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Heildarlaun eru skilgreind sem samtala grunndagvinnulauna, álagsgreiðslna, kostnaðargreiðslna, bónussgreiðslna, ákvæðisgreiðslna, vaktaálags, yfirvinnulauna, eingreiðslna, nefndarlauna, hlunninda, annarra launa, orlofsgreiðslna og vísindasjóðs.
Annar launakostnaður er samtala lífeyrissjóðsgjalds, tryggingagjalds, sjúkrasjóðsgjalds, orlofsheimilasjóðsgjalds, annarra launatengdra gjalda og veikindalauna.
Heildarlaunakostnaður er samtala heildarlauna og annars launakostnaðar.
Heildarlaunakostnaður án óreglulegra greiðslna er samtala heildarlauna og annars launakostnaðar að frádregnum óreglulegum greiðslum og annars launakostnaðar sem þeim tengist. Óreglulegar greiðslur skilgreinast hér sem þær greiðslur sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili.
Heildarfjöldi greiddra stunda er samtala dagvinnutíma, yfirvinnutíma og vaktaálagstíma.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Tölurnar eru gefnar út ársfjórðungslega og ná aftur til fyrsta ársfjórðungs 1998.

2.2 Vinnslutími

Skil til Eurostat er 70 dögum eftir að ársfjórðungi lýkur og þá eru tölurnar einnig gefnar út hér innanlands. Nýjustu tölur eru bráðabirgðatölur.

2.3 Stundvísi birtingar

Það hefur ávallt verið staðið við þær dagsetningar sem Eurostat hefur gefið Hagstofu Íslands og það einnig við útgáfuna hér innanlands.

2.4 Tíðni birtinga

Birting er ársfjórðungslega, 70 dögum eftir að ársfjórðungi lýkur.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Launarannsókn Hagstofu Íslands er úrtaksrannsókn og byggir úrtaksramminn (sá listi sem úrtakið er valið úr og ætlað er að endurspegla þýðið) á staðgreiðslugögnum Ríkisskattstjóra. Á hverju ári verða breytingar, sum fyrirtæki hætta starfsemi, önnur stækka auk þess sem samruni eða sameining fyrirtækja er algeng. Við þessu hefur verið brugðist með vali sambærilegra fyrirtækja inn í úrtakið. Úrtaksramminn er endurnýjaður á hverju ári.
Við hönnun úrtaks á almennum vinnumarkaði er notað s.k. lagskipt klasaúrtak (e. stratified clusters sampling) þar sem úrtakseining (e.sampling unit) rannsóknarinnar og grunneining úrtaksrammans er rekstrareining fyrirtækisins (e. kind of activity unit). Hvert lag er atvinnugrein og klasi er rekstrareining. Sveitarfélög eru valin eftir stærð og landssvæði. Í hverju lagi (atvinnugrein) er fundin viðmiðunarstærð sem endurspeglar fjölda starfsmanna í meðalstóru fyrirtæki. Stærstu fyrirtækin í hverri atvinnugrein eru sjálfvalin og fá úrtakslíkur 1. Önnur fyrirtæki eru dregin af handahófi. Öll lítil fyritæki í sama atvinnugreinabálki hafa sömu líkur á að vera dregin í úrtak. Einstaklingar hafa sömu úrtakslíkur og fyrirtækið sem þeir starfa hjá.
Til að tryggja nákvæmar og réttar upplýsingar um störf og launaupplýsingar í launarannsókn Hagstofu Íslands er leitað beint til fyrirtækja og sveitarfélaga og gagna aflað með rafrænum hætti úr launahugbúnaði þeirra. Aðferðin er sú áreiðanlegasta sem völ er á þar sem gögnin berast hrein og milliliðalaust. Áður en þátttaka fyrirtækja í rannsókninni hefst heimsækja eða hringja starfsmenn frá Hagstofu Íslands í öll fyrirtæki og gefa nákvæmar leiðbeiningar við flokkun og tengingar launaliða auk þess sem gætt er að samræmingu eftir nákvæmum verklagsreglum. Eftir að fyrirtæki er komið í skil heldur endurgjöf til fyrirtækja áfram ef ástæða þykir. Við gæðaprófun gagna er mikil áhersla lögð á stöðluð villupróf, samræmingu og vönduð og nákvæm vinnubrögð.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Í þessari launakostnaðarvinnslu, sem er framkvæmd ársfjórðungslega, og hinni mánaðarlegu launarannsókn sem vinnslan er byggð á eru ýmsar skekkjur mögulegar: Úrtaksskekkjur: Úrtaksskekkjur stafa af þeirri óvissu sem felst í því að úrtakið er ekki nákvæm eftirmynd þýðis. Úrtaksskekkjur eru háðar úrtakshönnun, stærð úrtaks og dreifni (e. variance). Úrtak launarannsóknar tekur breytingum sem og markaðurinn í heild sinni en leitast er við að úrtakið endurspegli markaðinn sem frekast getur. Skekkjur vegna ófullkomins úrtaksramma: Við úrtakshönnun og gerð úrtaksramma launarannsóknarinnar hefur verið reynt að halda úrtaksskekkju og skekkju vegna ófullkomins úrtaksramma í lágmarki. Reiknað er með að þessar skekkjur minnki mjög við stækkun úrtaks og endurnýjun úrtaksramma. Mæliskekkjur og brottfallsskekkjur við gagnaöflun: Það kemur t.d. fyrir að starfsmenn fyrirtækja eru ekki rétt flokkaðir, sérstaklega í þeim fyrirtækjum þar sem starfsmannavelta er mikil. Með góðu samstarfi við fyrirtæki er taka þátt í rannsókninni og nákvæmum vinnureglum við móttöku gagna er reynt að draga úr þessum skekkjum.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í útgáfum eru ekki notaðar tölur um skekkju-/öryggismörk.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Aðferðafræðin er sú sama á milli tímabila. Eurostat getur þó breytt breytum og aðferðum minniháttar eftir því sem reynsla kemur á vinnslu og notkun gagna. Úrtakið getur breyst töluvert á milli tímabila og þó svo passað er upp á að ákveðinni dreifingu fyrirtækja sé náð í hverri atvinnugrein þá getur það vissulega haft áhrif á samanburðarhæfni gagna.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Gerður hefur verið samanburður við launavísitöluna. Í ljós kom að vísitölur launakostnaðar höfðu hækkað lítið eitt meira en vísitala launavísitölunnar fyrir almennan markað. Töluverður munur er þó á eðli vísitalnanna þar sem launavísitalan byggir á pöruðum breytingum og nær eingöngu til grunndagvinnulauna.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Nýjustu tölur eru bráðabirgðatölur þar til næst er gefið út.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Fréttatilkynning send til fjölmiðla
  • Tölur gefnar út í Hagtíðindum
  • Vefur hagstofunnar, ársfjórðungslega
  • Eurostat birtir niðurstöður sínar á vef sínum, http://epp.eurostat.ec.europa.eu/

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt sem trúnaðarupplýsingar á Hagstofunni. Aðgangur að grunngögnum er bundinn við þá starfsmenn hagstofunnar sem vinna með gögnin. Helstu einkenni fyrirtækja og einstaklinga eru brengluð til að hylja uppruna gagnanna.

5.3 Skýrslur

Helstu niðurstöður koma fram í Hagtíðindum.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá starfsmönnum deildarinnar.

© Hagstofa �slands, �ann 24-6-2014