Vinnumagn


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Vinnumagn

0.2 Efnisflokkur

Þjóðhagsreikningar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Deild þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála
netfang: thjodhagur@hagstofa.is
sími: 528 1000

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Þegar bera á saman samtölur þjóðhagsreikninga á milli landa, og á milli atvinnugreina og geira innan sama hagkerfis, er gott að styðjast við hlutfallslegar stærðir. Stærðirnar eru þá í hlutfalli við íbúafjölda eða í hlutfalli við vinnumagnseiningar. Einingar fyrir vinnumagn eru framleiddar til að fá staðlaðaðar samanburðarstærðir samkvæmt ESA 2010 þjóðhagsreikningastaðlinum.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Einingar fyrir vinnumagn eru notaðar einar og sér til þess að meta umfang vinnu sem stendur að baki landsframleiðslu og til þess að reikna hlutfallslegar stærðir með ýmsu móti til þess að meta framleiðni. Alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar, OECD og Evrópusambandið notast við hlutfallslegar stærðir við samanburð á þróun milli landa.

0.6 Heimildir

Í meginatriðum er stuðst er við gögn úr könnunum til þess að meta hlutfallsegar stærðir sem eru heimfærðar á skráargögn sem ná yfir þýðið. Hlutfallslegar stærðir og flokkanir eru fengnar úr Launarannsókn Hagstofu Íslands og Vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Skrárargögn sem stuðst er við eru staðgreiðslugögn, skattframtöl og launamiða einstaklinga. Einnig er stuðst við menntagagnagrunn, lögskráningardaga og framtöl fyrirtækja.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Sjá lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Í meginatriðum er stuðst við stjórnsýsluskrár og kannanir sem fyrirfinnast innan Hagstofu Íslands. Ekki hefur verið farið í reglubundna og skipulagða innsöfnun á gögnum. Óregluleg innsöfnun á gögnum, frá fyrirtækjum og stofnunum, er framkvæmd vegna afmarkaðra þátta í framleiðsluferlinu.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 2223/96 er kveðið á um samræmdar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga í ríkjum ESB og EES.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Vinnumagn fyrir þjóðhagsreikninga á við hverja þá vinnu sem lögð er til í framleiðslu á þeim vörum og þjónustum sem eru til grundvallar landsframleiðslu samkvæmt ESA 2010.

Stærðirnar fyrir vinnumagn eru (i) fjöldi starfandi, (ii) fjöldi starfa, og (iii) unnar klukkustundir. Hver stærð er birt í niðurbroti eftir atvinnugrein og hvort um launamenn eða sjálfstætt starfandi er að ræða. Atvinnugreinaflokkun er í samræmi við ÍSAT2008 atvinnugreinaflokkunina og er sett fram í niðurbrotinu er A10 fyrir ársfjórðungslegar tölur og A64 fyrir árs gögn.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Fjöldi starfandi er meðalfjöldi einstaklinga eftir aðalstarfi í mánuði yfir tímabilið. Þannig er hver einstaklingur einungis talinn einu sinni í hverjum mánuði.

Fjöldi starfa er meðalfjöldi starfa í mánuði yfir tímabilið. Starf er skilgreint sem samningur sem gerður er með beinum eða óbeinum hætti milli einstaklings og innlendsum rekstraraðila um það að framkvæma vinnu í skiptum fyrir þóknun endurgjald yfir skilgreint tímabil eða þar til annað er ákveðið. Einstaklingar geta starfað við fleira en eitt starf og geta því komið fyrir oftar en einu sinni í mánuði.

Fjöldi vinnustunda táknar samtals allar þær klukkustundir sem launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sinna vinnu yfir allt tímabilið þar sem afraksturinn fellur innan marka fyrir framleiðslu.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árstölur vísa til almanaksárs og ársfjórðungslegar tölur vísa til viðkomandi ársfjórðungs.

Viðmunartími útgefinna árstalna er 2008-2016 en viðmunartími útgefinna ársfjórðungstalna er 1. ársfjórðungur 2008 - 3. ársfjórðungs 2017.

2.2 Vinnslutími

Fyrstu bráðabirgðatölur um liðið ár eru birtar að jafnaði um 9 máuðum eftir að árinu lýkur samtímis birtingu þjóðhagsreikninga. Endurskoðaðar tölur eru að jafnaði birtar um 15 mánuðum eftir að árinu lýkur.

Ársfjórðungstölur eru að jafnaði birtar rúmum tveimur mánuðum eftir að viðmiðunartímabili lýkur.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar.

2.4 Tíðni birtinga

Sjá grein 2.2 hér að framan.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki


3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur eða ónákvæmni í gögnum setja vissulega mark sitt á tölur um þjóðhagsreikninga. Þó má segja að með samræmdri meðhöndlun gagnanna frá ári til árs megi draga verulega úr skekkju í frumheimildum.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í útgáfum eru ekki notaðar tölur um skekkju eða öryggismörk.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Ein af grunnhugmyndunum með þjóðhagsreikningum er að fylgt skal samræmdum aðferðum frá ári til árs í því skyni að tímaraðir verði eins sambærilegar og kostur er. Með tilkomu nýrra og betri heimilda eða aðferða eitthvert ár getur sambærileikinn þó raskast og er þá leitast við að leysa þann vanda með því að reikna breytingaárið samkvæmt bæði gömlu og nýju aðferðinni og nota breytingaárið sem tengiár. Sem dæmi um slíka breytingu má nefna upptöku nýs flokkunarkerfis atvinnugreina (ÍSAT 2008) árið 2008.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Vinnumagn í þjóðhagsreikningum á við heildarmagn vinnu fyrir fyrirtæki, stofnun eða sjálfstætt starfandi einstakling við framleiðslu á vörum og þjónustu sem fellur innan marka fyrir landsframleiðslu. Það er því horft til skilgreiningar og staðsetningar á starfseminni frekar heldur en einstaklinganna sem leggja vinnuna af hendi. Vinnumarkaðsrannsókn er rannsókn á innlendum vinnumarkaði sem ætlað er að lýsa horfum einstaklinga sem búsettir eru á landinu, óháð því hvort og þá fyrir hvern þeir starfa. Í þjóðhagsreikningum er ekki gerður greinamunur á milli einstaklinga, hvort sem er kyn, aldur, þjóðerni eða búseta, svo framarlega að vinnan var fyrir starfsemi sem fellur innan marka þjóðhagsreikninga. Þannig er til að mynda vinna sem einstaklingur á innlendum vinnumarkaði (búsettur á landinu) sinnir fyrir erlent sendiráð ekki meðtalið með í innlendum þjóðhagsreikningum. Það fellur til þjóðhagsreikninga viðkomandi lands sem sendiráðið tilheyrir. Þá eru einnig birtar tölur um vinnumagn í hagtölum um starfsemi innlendra fyrirtækja. Í þeim samanburði ber að athuga hvaða atvinnugreinar eru undirliggjandi, hvort ríki og sveitarfélög sé meðtalin og hvort sjálfstætt starfandi sem taldir með.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki fást endanlegar tölur um sjálfstætt starfandi einstaklinga fyrr en á þriðja ársfjórðungi á árinu þar á eftir. Þannig eru upplýsingar um sjálfstatt starfandi einstaklinga 2010 birtar sem bráðabirgðatölur allt fram að birtingu þriðja ársfjórðungi 2011.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Vefur Hagstofu Íslands
Gagnabankar OECD og Eurostat sem eru aðgengilegir á heimasíðum þessara stofnana.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fá aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt eru. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi og fylgt verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar.

5.3 Skýrslur

Þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins, ESA 2010:
http://ec.europa.eu/eurostat/documents/3859598/5925693/KS-02-13-269-EN.PDF

5.4 Aðrar upplýsingar

Á vef Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins) er að finna aðgengilegar upplýsingar um vinnumagn í þjóðhagsreikningum og tengsl við aðra Evrópska tölfræði um vinnuafl, svo sem niðurstöður Vinnumarkaðsrannsókna:

http://ec.europa.eu/eurostat/web/national-accounts/methodology/european-accounts/employment

Í frétt um fyrstu birtingu niðurstaðna um vinnumagn í þjóðhagsreikningum og framleiðni vinnuagls er einnig nokkur umfjöllun um aðferðir og forsendur. Sjá frétt "Ný tölfræði um vinnumagn og framleiðni vinnuafls" dags. 27. febrúar 2018.

© Hagstofa �slands, �ann 26-2-2018