Vísitala lífeyrisskuldbindinga


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Vísitala lífeyrisskuldbindinga

0.2 Efnisflokkur

Laun og tekjur

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Laun, tekjur og menntun
Tölvupóstfang: laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Vísitala lífeyrisskuldbindinga er birt samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997 og lögum um lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga nr.2/1997. Samkvæmt lögunum skal Hagstofa Íslands reikna meðalbreytingar á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Í 3. málsgrein 24. greinar laga nr. 1/1997 og 3. málsgrein 8. greinar laga nr. 2/1997 segir: ,,Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega."
Vísitala lífeyrisskuldbindinga var fyrst reiknuð í febrúar 1997 vegna breytinga á launum opinberra starfsmanna milli desember 1996 og janúar 1997. Vísitala lífeyrisskuldbindinga var því stillt á 100 í desember 1996.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Notkunarsvið er fyrst og fremst bundið við lögbundið hlutverk vísitölunnar.

0.6 Heimildir

Vísitala lífeyrisskuldbindinga byggir á gagnasafni launarannsóknar Hagstofu Íslands. Í rannsókninni eru upplýsingum allra starfa hjá úrtaki sveitarfélaga og þeim stofnunum ríkisins sem fjársýslan greiðir laun aflað. Um er að ræða nákvæmar upplýsingar um launagreiðanda, launamann, launagreiðslur, greiddar stundir og annan launakostnað. Gögnin eru gæðaprófuð við móttöku, þar sem sannreynt er að þau standist uppsettar kröfur. Þegar gögnin hafa verið gæðaprófuð eru þau vistuð í gagnagrunni Hagstofunnar og notuð til úrvinnslu. Við framkvæmd launarannsóknar er tekið mið af þeim kröfum sem gerðar eru til launarannsókna í reglugerðum á Evrópska efnahagssvæðinu.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands nr. 163/2007 er eitt af meginatriðum landshagsins að rannsaka efnahag landsmanna og er einn liður í þeirri skoðun að fylgjast með launaþróun. Hagstofa Íslands reiknar og birtir vísitölu lífeyrisskuldbindinga skv. lögum nr. 1/1997 og nr. 2/1997.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Leitast er við að halda svarbyrði í lágmarki. Í upphafi þegar sveitarfélag eða ríkisstofnanir eru innleiddar í launarannsókn er farið í gegnum tæknileg atriði með sérfræðingi Hagstofunnar s.s. starfaflokkun skv. Ístarf95, launasamsetning í rekstrareiningar er skoðuð og launaliðir tengdir færslu rannsóknarinnar þannig að samræmis sé gætt við aðrar rekstrareiningar í úrtaki. Þegar innleiðingarferli er lokið senda rekstrareiningar skilagrein í formi textaskjals til Hagstofunnar mánaðarlega. Ef upp koma álitamál við vinnslu gagna er haft samband við viðkomandi rekstrareiningu.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin EES eða ESB ákvæði.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Vísitala lífeyrisskuldbindinga er verðvísitala. Vísitalan á að endurspegla breytingar á einingarverði dagvinnulauna opinberra starfsmanna, þ.e. launagreiðslum sem mynda stofn til greiðslu iðgjalda í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þannig eiga aðferðirnar að aðgreina breytingar á dagvinnulaunum sem eru vegna breytinga á einingaverði launa frá breytingum sem verða af öðrum ástæðum, s.s. vegna breytinga á samsetningu opinberra starfsmanna eða samsetningu dagvinnulauna opinberra starfsmanna.
Vísitala lífeyrisskuldbindinga er fastgrunnsvísitala. Breytingar á samsetningu opinberra starfsmanna hafa því ekki áhrif á niðurstöður, þótt slíkar breytingar geti haft áhrif á heildarupphæð launagreiðslna.
Við útreikning á launabreytingum eru reiknaðar paraðar einstaklingsbreytingar þeirra einstaklinga sem eru í sama starfi á báðum viðmiðunartímabilum, hjá sömu rekstrareiningu og í sömu atvinnugrein. Reiknaðar eru breytingar á launum sérhvers einstaklings sem uppfyllir áður nefnd skilyrði og ræðst vog hvers einstaklings af launafjárhæð hans.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Sama starf
Störf eru flokkuð samkvæmt ÍSTARF95 flokkunarkerfinu. ÍSTARF95 er flokkunarstaðall sem byggir á starfaflokkunarkerfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ISCO-88. Meginmarkmið flokkunarkerfisins er að störf séu flokkuð eftir innihaldi starfs í stað starfsheitis. Við pörun er notast við fjögurra stafa flokkun auk stöðutölu.
Pöruð breyting
Með paraðri breytingu er átt við að aðeins eru reiknaðar breytingar á launum þeirra einstaklinga sem eru í sama starfi á báðum viðmiðunartímabilum, hjá sömu rekstrareiningu og í sömu atvinnugrein. Reiknaðar eru breytingar á launum sérhvers einstaklings sem uppfyllir áður nefnd skilyrði og eru þær breytingar svo vegnar saman með tilliti til launasummu.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími vísitölu lífeyrisskuldbindinga er næstliðinn mánuður. Vísitala janúarmánaðar sem birtist uppúr miðjum febrúarmánuði byggir því á breytingum launa á milli desember og janúar.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími er að jafnaði um 22 dagar frá því að viðmiðunarmánuði lýkur og þar til að vísitalan er birt.

2.3 Stundvísi birtingar

Útreikningar vísitölunnar byggja á launagögnum undangengins mánaðar. Vísitala lífeyrisskuldbindinga er birt samkvæmt birtingaráætlun Hagstofu Íslands, u.þ.b. 22 dögum frá því að viðmiðunartímabili lýkur.

2.4 Tíðni birtinga

Vísitalan er birt mánaðarlega.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Til að tryggja nákvæmar og réttar upplýsingar um störf og launaupplýsingar í launarannsókn Hagstofu Íslands er leitað beint til rekstrareiningar og gagna aflað með rafrænum hætti úr launahugbúnaði þeirra. Aðferðin er sú áreiðanlegasta sem völ er á þar sem gögnin berast hrein og milliliðalaust. Áður en þátttaka launagreiðana í rannsókn hefst heimsækja eða hringja starfsmenn frá Hagstofu Íslands í alla þátttakendur og gefa nákvæmar leiðbeiningar við flokkun og tengingar launaliða auk þess sem gætt er að samræmingu eftir nákvæmum verklagsreglum. Eftir að launagreiðandi er komin í skil heldur endurgjöf til rekstrareininga áfram ef ástæða þykir. Við gæðaprófun gagna er mikil áhersla lögð á stöðluð villupróf, samræmingu og vönduð og nákvæm vinnubrögð.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Áreiðanleiki launavísitölu er háður óvissu vegna mögulegra skekkja. Skekkjur geta verið af ýmsum toga en í grunninn flokkast þær eftir því hvort um er að ræða úrtaksskekkjur (e. sampling errors) eða aðrar skekkjur( e. non sampling errors).
Úrtaksskekkjur stafa af þeirri óvissu sem felst í því að úrtakið er ekki nákvæm eftirmynd þýðis. Úrtaksskekkjur eru háðar úrtakshönnun, stærð úrtaks og dreifni (e. variance). Við úrtakshönnun og gerð úrtaksramma launarannsóknarinnar hefur verið reynt að halda úrtaksskekkju og skekkju vegna ófullkomins úrtaksramma í lágmarki.
Auk úrtaksskekkja er ýmislegt annað sem getur talist til mögulegra uppspretta skekkja. Með góðu samstarfi við launagreiðendur hins opinbera sem taka þátt í rannsókninni og nákvæmum vinnureglum við gæðaprófun gagna er hættan á brottfalls- og mæliskekkjum lágmörkuð.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki hafa verið gerðar sérstakar athuganir á umfangi skekkju í vísitölu lífeyrisskuldbindinga. Öryggismörk eru ekki reiknuð.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Niðurstöður eru samanburðarhæfar á milli tímabila.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Launavísitala Hagstofu Íslands sýnir breytingar á öllum launum fyrir fastan vinnutíma en vísitala lífeyrisskuldbindinga eingöngu breytingar á þeim launum sem iðgjöld lífeyris eru almennt greidd af og lífeyrir reiknast eftir.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru birtar.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn sem vísitalan byggir á eru fyrst og fremst upplýsingar sem fengnar eru beint úr launakerfum rekstrareininga. Þau gögn innihalda upplýsingar um laun og launakostnað einstaklinga. Grunngögn eru varðveitt sem trúnaðarupplýsingar á Hagstofunni. Aðgangur er ekki veittur að þessum gögnum umfram það sem birt er opinberlega. Um meðferð og varðveislu gagna gilda að öðru leyti verklagsreglur Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna.

5.3 Skýrslur

Ekki eru gefnar út sérstakar skýrslur í tengslum við vísitölu lífeyrisskuldbindinga.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá starfsmönnum deildarinnar.

© Hagstofa �slands, �ann 24-6-2014