Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga

0.2 Efnisflokkur

Þjóðhagsreikningar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Laun, tekjur og menntun
Tölvupóstfang: laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Birting á skuldum, eignum og eiginfjárstöðu einstaklinga er hluti af verkefni sem stjórnvöld fólu Hagstofunni í ársbyrjun 2012. Verkefnið er fólgið í því að halda utan um og safna reglulega ítarlegum upplýsingum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja með það að markmiði að vinna úr þeim tölfræðilegar upplýsingar. Hagtölurnar ná til upplýsinga um stöðu og þróun skulda, greiðslubyrði og greiðsluvanda, i) fyrir heimili eftir heimilisgerð, aldri, tekjum og eignum heimilismanna, og ii) fyrir fyrirtæki eftir rekstrarformi, stærð og atvinnustarfsemi. Gagnaveitendur í verkefninu eru bankar og fjármálafyrirtæki og mun birting hagtalna verða ársfjórðungsleg. Sá hluti þessa verkefnis sem hér um ræðir er árleg greining á fjárhagsstöðu úr skattframtölum einstaklinga, sem samræmd hafa verið á milli ára frá árinu 1997. Þar er að finna upplýsingar um heildarskuldir, -eignir, -tekjur, -skatta og -bætur einstaklinga í lok hvers árs. Gögnin eru tiltæk þegar skattskrá liggur fyrir á hverju ári.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Upplýsingar um fjárhagsstöðu heimila eru mikilvægt tæki til að greina skuldir, eignir og eigið fé mismunandi hópa í þjóðfélaginu. Jafnframt eru upplýsingar um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja er nauðsynlegar við stefnumótun og mat á árangri aðgerða sem settar eru fram af stjórnvöldum á hverjum tíma. Upplýsingar um skuldir, eignir og eigið fé auðvelda jafnframt greiningu á skuldavanda hverju sinni.

0.6 Heimildir

Skattframtöl einstaklinga.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Sjá lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Engin.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin slík ákvæði liggja fyrir.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Ár hvert eru gefnar út eftirfarandi töflur sem ná yfir síðastliðið ár:
Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga eftir fjölskyldugerð, aldri og búsetu
Tekjur og gjöld einstaklinga eftir fjölskyldugerð, aldri og búsetu
Tíundamörk hlutfallsdreifinga eigna, skulda, eigin fjár, heildartekna og ráðstöfunartekna
Heildarárstekjur, hlutfallsdreifing, samtala tíundahluta
Skuldir, hlutfallsdreifing, samtala tíundahluta
Eignir, hlutfallsdreifing, samtala tíundahluta
Eigið fé, hlutfallsdreifing, samtala tíundahluta
Ráðstöfunartekjur, hlutfallsdreifing, samtala tíundahluta
Fjöldi fjölskyldna með neikvætt eigið fé í fasteign
Skýribreytur skuldsettra eftir skuldatíundum : Meðaltal
Skýribreytur eftir skuldahlutföllum ráðstöfunartekna : Fjöldi
Skýribreytur eftir skuldahlutföllum eigna: Fjöldi

1.2 Tölfræðileg hugtök

Fjölskylda er mynduð af samsköttuðum einstaklingum og börnum undir 16 ára aldri á þeirra framfæri. Fjölskyldugerðin getur því vikið verulega frá fjölskyldugerð í þjóðskrá, enda þurfa hjón ekki að vera samsköttuð. Ungir framteljendur eru skráðir sem einstaklingar á eigin fjölskyldunúmeri frá sextán ára aldri og þurfa að telja fram sem sjálfstæðir einstaklingar þó svo þeir búi enn í foreldrahúsum.

Aldur fjölskyldu miðast við elsta fjölskyldumeðlim.

Búseta skiptist í höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Til höfuðborgarsvæðis teljast núverandi sveitarfélög: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur. Önnur sveitarfélög teljast til landsbyggðar.


Skuldir eru samanlagðar heildarskuldir fjölskyldu. Til heildarskulda teljast allar skuldir fjölskyldu að meðtöldum fasteignaskuldum sem eru skuldir vegna fasteignakaupa. Skuldir vegna kaupleiguíbúða eru ekki taldar með. Skuldir alls ná til allra í þýðinu, einnig þeirra sem skulda ekkert. Breytan skuldsettir er notuð um þá sem skulda einhverja fjárhæð.

Aðrar skuldir eru allar aðrar fjárhagsskuldbindingar einstaklinga, þar með talin ökutækjalán, framkvæmdalán, námslán, yfirdráttarlán og kreditkortalán.

Eignir eru allar eignir fjölskyldu, þ.e. fasteignir (bæði innlendar og erlendar), peningalegar eignir (innlán, verðbréf og aðrar peningalegar eignir), aðrar eignir auk ökutækja.

Fasteignir eru samtala allra fasteigna fjölskyldu, bæði innlendra og erlendra. Verðmæti fasteigna er miðað við fasteignamat.

Innlán eru bankainnistæður í innlendum og erlendum bönkum og einnig innistæður barna.

Verðbréf eru hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum (nafnverð), eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur.

Aðrar eignir eru húsnæðissparnaður, skyldusparnaður, hrein eign samkvæmt efnahagsreikningi og aðrar óskilgreindar eignir.

Eiginfjárstaða er mismunur á heildareignum og heildarskuldum.

Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna en án vaxta- og barnabóta.

Atvinnutekjur eru launatekjur auk reiknaðs endurgjalds.

Fjármagnstekjur eru allar vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og tekna af atvinnurekstri.

Aðrar tekjur eru t.d. greiðslur frá Tryggingastofnun, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð auk vinninga og námsstyrkja.

Skattar eru allir greiddir skattar, þ.e. samtala tekjuskatts, útsvars, eignarskatts, fjármagnstekjuskatts og annarra skattaliða sem koma fyrir á framtali, að frádregnum vaxta- og barnabótum. Fasteignagjöld, bifreiðagjöld o.þ.h. eru því ekki meðtalin hér.

Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur að frádregnum sköttum.

Tíundarmörk sýna dreifingu fjárhæða (t.d. skulda og eigna) sem er raðað í tíundir (e. deciles). Reglan er sú 10% þeirra sem hafa lægstu upphæðirnar eru í neðstu tíundinni og 10% þeirra með hæstu upphæðirnar tilheyra efstu tíundinni. Fjárhæðir sem liggja innan hverrar tíundar eru síðan lagðar saman í samtölu tíundarhluta. Í umfjöllun um dreifingu skulda (þ.e. skiptingu í tíundir) er eingöngu miðað við skuldsetta einstaklinga, þ.e. skuldlausir hafa verið fjarlægðir úr þýðinu.

Skuldahlutfall er reiknað út frá hlutfalli skulda af eignum annars vegar og af ráðstöfunartekjum hins vegar. Er hlutfallið reiknað skuldir/ráðstöfunartekjum og flokkað eftir hlutfallinu <300%, 300-500% og >500% þ.e. ef skuldir hóps eru minni en þrefaldar ráðstöfunartekjur ársins er það með skuldahlutfall af ráðstöfunartekjum <300% o.s.frv.

Samsvarandi hlutfall skulda af eignum er reiknað skuldir/eignir þess hóps sem um ræðir og er skipt í hópa sem skulda minna en 75% eigna (<75%) eða skulda á milli 75-100% af verðmæti eigna eða 100-150% af eignum og að lokum ef skuldir eru hærri en sem nemur 150% af heildareignum viðkomandi hóps.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Tölur um eignir og skuldir miðast við stöðu í lok hvers árs en tekjur og gjöld eru samtölur yfir almanaksárið.

2.2 Vinnslutími

Gögn hvers árs eru tekin til vinnslu þegar árleg álagningaskrá Ríkisskattstjóra liggur fyrir og gefin út um haustið og því með um 9 mánaða tímatöf (t+9).

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar.

2.4 Tíðni birtinga

Upplýsingar um fjárhagsstöðu heimila úrskattframtölum einstaklinga eru birtar einu sinni á ári.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Við úrvinnslu á fjárhagsstöðu fjölskyldna eru notuð öll skattframtöl viðkomandi árs sem skilað hefur verið til ríkisskattstjóra. Tekjur einstaklinga sem ekki hafa talið fram og eru áætlaðar eru ekki teknar með í þessa úrvinnslu.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skattframtöl eru grunngögn fyrir útgáfuna. Þeim er safnað af skattyfirvöldum vegna skattálagningar. Verkefni skattyfirvalda eru ákvörðuð með lögum og þær upplýsingar sem beðið er um á framtali eru til að leggja á opinber gjöld. Skilgreining skattyfirvalda á einstaklingum ræður því hvernig þeir skiptast í hópa í úrvinnslunni og er hún að einhverju leyti önnur en notuð er í þjóðskrá. Í þjóðskrá fær einstaklingur ekki eigið fjölskyldunúmer fyrr en við 18 ára aldur en hjá ríkisskattstjóra frá 16 ára aldri, en samkvæmt skattalögum telst einstaklingur þá sjálfstæður skattaðili og þarf að skila framtali. Fjölskyldunúmer í þjóðskrá eru því færri en notuð eru í útgáfunni. Fjölskyldueiningin sem notuð er í útgáfunni miðast við skilgreiningu ríkisskattstjóra en ekki skilgreiningu þjóðskrár.

Í framtali eru hlutabréf talin fram á nafnvirði, en flestar aðrar skuldir uppfærðar til verðlags í lok ársins. Lán eru færð í framtal á áætluðu virði eins og það er í lok árs. Gengisbundin lán eru á mati miðað við í lok hvers árs og niðurfærslur eða afskriftir lána ekki sýndar sérstaklega. Virði fasteigna er miðað við fasteignamat sem er ákvarðað miðað við verðlag í febrúar ár hvert. Fasteignamat sem Þjóðskrá gefur út í júní fyrir tiltekið ár tekur gildi 31. desember og á skattframtali eru eignir skráðar á mati í árslok. Á skattframtali 2012, vegna tekna 2011, eru eignir þannig á mati sem tók gildi 31. desember 2011, sem skiptir máli þegar eignastaðan er metin. Upplýsingar um vanskil, afborganir og önnur atriði sem máli skipta þegar greiðslustaða er metin koma ekki fram á framtölum. Vakin er athygli á því að forskráning gagna skattframtala hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem torveldar samanburð við eldri gögn.

Nokkur munur er á skilgreiningum í geirareikningum þjóðhagsreikninga og skattframtölum við mat á ráðstöfunartekjum heimila. Til dæmis er munur á því hvernig tekjur sjálfstætt starfandi einstaklinga eru metnar. Í framtalsniðurstöðum eru þær tekjur taldar sem reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur, auk hreinna tekna af eigin atvinnurekstri samkvæmt framtali. Í þjóðhagsreikningum eru þær tekjur hins vegar metnar út frá geiraskiptingu framleiðslureikninga hagkerfisins. Í þjóðhagsreikningum er búseta í eigin húsnæði metin til tekna en ekki er um slíkt að ræða í framtali, en þar er vaxtakostnaður vegna kaupa á eigin húsnæði talinn með. Almennur söluhagnaður er metinn til eignatekna í framtali en ekki talinn með í ráðstöfunartekjum í þjóðhagsreikningum en þar er reiknað með tekjum sem hægt er að ráðstafa án þess að gengið sé á efnahaginn. Mismunur er einnig á aðferðum við mat á "óframtöldum tekjum" sem metnar eru til tekna í ráðstöfunartekjum heimila í þjóðhagsreikningum, en eru ekki með í framtalsgögnum.

Talnaefni fyrir árin 2009-2014 var leiðrétt við útgáfu á niðurstöðum ársins 2015. Lagfæringar voru gerðar á grunngögnum eigna og skulda einstaklinga sem ekki voru rétt skráð í gagnagrunn árin 2009-2014. Lagfæringarnar ná til 4-5000 einstaklinga á hverju ári. Villan fólst í því að eignir og skuldir fyrrverandi maka voru meðtalin skattframteljanda og hlutur eigna sambúðarfólks jókst en þáttur eigna einstaklinga lækkaði. Áhrifin eru óveruleg á heildarniðurstöður eigna, skulda og eiginfjár og eru á bilinu -0,2% til 0,6% en hafa þó áhrif á sundurliðun einstakra undirliða í niðurstöðunni.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engin öryggismörk eru reiknuð þar sem um heildarsafn er að ræða.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gögnin eru samanburðarhæf milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs við útreikninga og vinnslu. Sambærileiki talna getur þó raskast vegna breyttra heimilda eða aðferða og einnig ef breyting verður á álagningu eða lögbundnum skilum gagna til ríkisskattstjóra.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur


4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru gefnar út. Samhliða útgáfu ársins 2016 var talnaefni fyrir árin 1997-2015 endurskoðað.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Fréttir og efnisflokkaðar veftöflur sem birtar eru á vef Hagstofunnar.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fá aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt eru. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi og fylgt verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar.

5.3 Skýrslur

Gefin voru út Hagtíðindi um Skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga 1997-2011 í júní 2013 sem og Hagtíðindi um Skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga 2012 í ágúst 2013.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um einstaka þætti skuldaupplýsinga fást hjá ábyrgðamönnum efnisflokksins.

© Hagstofa �slands, �ann 2-10-2017